Logi og Glóð
Hver eru Logi og Glóð?
Fátt er vitað um Loga og Glóð enn sem komið er annað en að þau hafa sérstaka hæfileika til að verjast eldi og eru mjög dugleg að koma krökkum og fjölskyldum þeirra í skilning um mikilvægi eldvarna.
Logi og Glóð hafa fylgt okkur síðan 2007 þegar EBÍ og slökkviliðið fór að heimsækja leikskólana í bænum með fræðslu fyrir börnin um eldvarnir.
Markmiðið með verkefninu er að veita börnum fyrstu fræðslu um eldvarnir og stuðla að bættum eldvörnum bæði í leikskólanum og heimilum barnana.
Þegar Logi, Glóð og slökkviliðsmennirnir heimsækja leikskólana fá krakkarnir fallega möppu sem heitir Slökkviliðið mitt. Í henni eru meðal annars þrautir og verkefni og sérstakur reitur þar sem börnin geta sett mynd af sér með slökkviliðshjálm. Krakkarnir taka möppuna því með sér heim og sýna pabba og mömmu. Þau fá líka bækling með sér heim þar sem helstu atriði eldvarna eru útskýrð. Síðast en ekki síst fær hvert barn áritað viðurkenningarskjal þar sem slökkviliðsstjóri býður það velkomið í hóp aðstoðarmanna slökkviliðsins.
Ef þér vantar frekari upplýsingar um verkefnið er hægt að hafa samband við slökkviliðið og einnig er hægt að sjá nánari upplýsingar hér .
Brennuvargur
Brennuvargur er framhald af sögunni af Loga og Glóð. Í ljós kemur að Brennu-Vargur gengur laus í bænum. Hann er fjarskyldur ættingi Loga og Glóðar og hefur ekkert gott í hyggju. Þegar Brennu-Vargur lætur til skarar skríða á ný reynir mjög á snarræði og hugrekki Loga og Glóðar.
Er þetta framhald af fræðslu fyrir börn um eldvarnir. Áherslan er á að fræða átta ára grunnskólabörn og fá þau bókina Brennuvargur.
Slökkviliðið fer og heimsækir börnin í skólan, er farið í kringum eldvarnarvikuna sem er í nóvember. Í bókinni er fróðleikur um eldvarnir og er einnig eldvarnargetraun aftast í bókinni. Þau börn sem skila inn eldvarnargetrauninni eiga möguleika á vinningum sem dregnir eru út og eru afhentir á 112-deginum sem er haldinn 11 febrúar ár hvert.
Teiknimyndir
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands (EBÍ) hafa gefið út stuttar teiknimyndir um Loga og Glóð. Hægt er að sjá þær hér fyrir neðan.
Eldklárir aðstoðarmenn slökkviliðsins.
Tvíburarnir Logi og Glóð eru slökkviálfar og aðstoðarmenn slökkviliðsins.
Þau kenna elstu börnunum í leikskólum landins allt um eldvarnir heimilisins. Til dæmis hvað það er nauðsynlegt að vera með reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi á heimilinu. Og svo auðvitað að fara varlega og passa sig á eldi.
En svo gerist nokkuð hræðilegt. Það hefur kviknað í einhvers staðar. Logi og Glóð þjóta af stað til að hjálpa slökkviliðinu að slökkva eldinn og bjarga fólkinu. Hvað kom eiginlega fyrir? Hver hringdi í 112? Geta börn kannski gert það? Og fer ekki örugglega allt vel að lokum?
Brennu-Vargur
Ævintýri Loga og Glóðar halda áfram. Að þessu sinni komast þau í kast við erkióvin sinn hann Brennu-Varg.
Myndin fjallar um baráttu Loga og Glóðar við hinn illgjarna Brennu-Varg og hvernig þau leystu ráðgátuna um tíða eldsvoða sem geisuðu í bænum í aðdraganda jólanna. Teiknimyndin er hluti af fræðsluefni um eldvarnir.